Ung, há, feig og ljóshærð; hvunndagshetjan Auður Haralds

Skáldkonan Auður Haralds var þekktust fyrir kaldhæðnar lýsingar á mönnum og málefnum, sem stundum féllu í grýttan jarðveg samtímans. Ekki síst vegna þess að hún nýtti húmorinn óspart til að gera grín að ýmsum samfélagsmeinum sem sérstaklega snéru að konum. Hlaðvarpið Myrka Ísland bregður sér í feminískan búning og breytir aðeins um viðfangsefni frá hefðbundnum hörmungum. Höfum notalega stemningu þar sem Sigrún segir Önnu frá verkum og ævi stórmeistarans Auði Haralds. Ekki aðeins skrifaði hún sprenghlægilegar bækur fyrir börn og fullorðna, heldur eru þær iðulega með mjög beittum tón og gagnrýnar á samfélagsgerðina og ekki síst feðraveldið. Það er vel hægt að flétta líf Auðar og staðsetja skrif hennar inn í baráttu kvenréttindafélaga og pólitískra afla á þeim tíma sem hún skrifaði ákveðnar bækur. Þær bækur sem eru hvað áhugaverðastar í þessu samhengi er Hvunndagshetjan frá 1979, þar sem Auður skrifar um einstæða móður þriggja barna sem býr við fátækt og jafnvel heimilisofbeldi og svo Læknamafían frá 1980, þar sem einstæð móðir berst við heilbrigðiskerfið sem neitar að samþykkja að hún sé með gallsteina. Báðar eru mjög fyndnar en um leið hræðilega tragískar þar sem þrátt fyrir að vera yfir 40 ára gamlar, eru bæði fátækt einstæðra mæðra, heimilisofbeldi og léleg þjónusta við konur í heilbrigðiskerfinu eitthvað sem eru viðvarandi vandamál enn í dag. Auður lék þá list vel að geta sagt frá hræðilegum atburðum en um leið verið fyndin. Jafnvel svo fyndin að boðskapurinn týnist? Um það má deila. Auður byggði sumar bækur sínar á eigin lífi og varð fyrir gagnrýni og jafnvel aðkasti fyrir vikið.

UPPLÝSINGAR

  • Umsjón: Héraðsbókasafn Borgarfjarðar
  • 23. október kl. 20:00
  • Safnhús Borgarfjarðar, Bjarnarbraut 4-6, Borgarnes, 310
  • Íslenska // Icelandic