
Kona forntónlistarhátíð: Frumkvöðlar strengjakvartettsins
Forntónlistarhátíðin Kona verður haldin í fjórða sinn í október og að þessu sinni á Þjóðminjasafni Íslands. Að hátíðinni stendur Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk, í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt af Tónlistarsjóði. Hátíðin samanstendur af þrennum tónleikum og leiðsögnum um grunnsýningu safnsins „Þjóð verður til“. Ólíkir munir og saga verða í brennidepli á hverjum viðburði. Flutt verður tónlist eftir konur sem brutust út úr hefðbundnum hlutverkum síns tíma til þess að sinna list sinni.
Leiðsögnin hefst í anddyri safnsins kl. 14 og verða tónleikar haldnir á 2. hæð að henni lokinni.
Gestir greiða einungis hefðbundinn aðgangseyri að safninu á viðburði hátíðarinnar. Aðgangur að safninu er ígildi árskorts og geta gestir því hlýtt á alla viðburði hátíðarinnar fyrir eitt verð.
Frumkvöðlar strengjakvartettsins
Á þessum tónleikum verða fluttir strengjakvartettar eftir þrjú tónskáld sem öll gerðu tilraunir með og þróuðu strengjakvartettformið eins og við þekkjum það í dag. Flutt verða verk eftir Joseph Haydn, Luigi Boccherini og Maddalenu Lombardini Sirmen en árið 1769 gáfu þau öll út safn kvartetta sem eru hver öðrum fjölbreyttari að efnistökum og aðferðum. Leiðsögn í aðdraganda þessara tónleika tengist ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem gefin var út 1772 og heimsókn Joseph Banks til Íslands sama ár. Forvitnilegt er að skoða íslenskan veruleika 18. aldar í ljósi tónlistarinnar sem samin var á meginlandi Evrópu á sama tíma.
Flytjendur:
Hildigunnur Halldórsdóttir, barokkfiðla
Diljá Sigursveinsdóttir, barokkfiðla
Anna Hugadóttir, barokkvíóla
Sigurður Halldórsson, barokkselló