Vanmat á kvennastörfum og launajafnrétti
Atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla. Helsta ástæða launamunar kynjanna er kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Vinnudagar kvenna af erlendum uppruna eru lengri og óreglulegri en almennt meðal kvenna á Íslandi og laun þeirra lægri. Konur sem starfa við ræstingar og umönnun barna fá lægstu launin í íslensku samfélagi. Fjárhagslegt sjálfstæði er forsenda þess að tryggja öryggi og frelsi kvenna og kvára. Stjórnvöld þurfa að standa með konum og kvárum og fara í aðgerðir.
Ólaunuð vinna kvenna og umönnunarábyrgð
Konur þurfa oftar að minnka við sig launaða vinnu til að sinna ólaunaðri vinnu innan veggja heimilisins. Yfir helmingur barna fær ekki leikskólapláss fyrr en eftir 18 mánaða aldur. Umönnunarbilið bitnar verr á tekjum, tækifærum og lífeyrisréttindum mæðra en feðra. Tekjur mæðra lækka um 30-50% við fæðingu barns og á þriðja ári eru þær enn umtalsvert lægri en áður. Tekjur feðra lækka um 3-5% við fæðingu en eftir ár eru þær orðnar þær sömu og áður. Einstæðar mæður eiga mjög erfitt með að ná endum saman.
Kynbundið ofbeldi
Um 40% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni, en trans fólk, þ.m.t. kvár og annað kynsegin fólk, fatlaðar konur og konur af erlendum uppruna eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en önnur. 15% stúlkna í 10. bekk og 6% stráka hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi annars unglings. Ofbeldi í netheimum getur verið jafn alvarlegt og ofbeldi í raunheimum, en 58% stúlkna og 35% drengja hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi.