Ásta málari

Ásta Kristín Árnadóttir frá Narfakoti í Innri-Njarðvík var óhrædd við að brjóta gegn rótgrónum hefðum um samfélagslegt hlutverk kvenna. Hún lauk prófi í málaraiðn árið 1907 og var þar með fyrsta íslenska konan til að taka próf í iðngrein. Þremur árum síðar hlaut hún meistarabréf í iðninni, fyrst kvenna og Íslendinga.

Ásta ruddi brautina fyrir konur. Hún bjó yfir óbilandi hugrekki og sjálfstrausti og lærði og starfaði víða um heim. Því er viðeigandi að gera sögu Ástu skil nú þegar hálf öld er liðin frá kvennaverkfallinu 1975. Árið 2025 hefur verið tileinkað baráttu fyrir jafnrétti og viðurkenningu á framlagi kvenna og kvára.

Sýning um Ástu málara opnar í Bíósal Duus safnahúsa fimmtudaginn 4. september kl. 18 og er hluti af dagskrá Ljósanætur í Reykjanesbæ. Sýningin er samstarfsverkefni Duus safnahúsa og Byggðasafns Reykjanesbæjar. Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir.

Sýningin stendur út nóvember. Hún nýtur stuðnings frá Félagi iðn- og tæknigreina, Sérefni og Húsasmiðjunni.

UPPLÝSINGAR

  • Umsjón: Duus safnahús og Byggðasafn Reykjanesbæjar
  • 4. september kl. 18:00
  • Duus safnahús, Duusgötu 2-8, Reykjanesbær, 230
  • "Við leggjum okkur fram um að tryggja aðgengi fyrir alla að sýningum húsanna. Inngangur í Duus safnahús er frá Duusgötu. Þar er rennihurð sem opnast sjálfkrafa og er aðgengi án þröskulda. Afgreiðslan er á vinstri hönd þegar komið er inn. Bílastæði eru gegnt Duus safnahúsum en merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða eru til móts við inngang. Í húsunum er aðgengi fyrir hjólastóla tryggt í öllum rýmum. Athugið þó að þar sem Bryggjuhúsið er gamalt og að miklu leyti upprunalegt að innan er gólf á efri hæðum ójafnt. Pallalyfta er í Bryggjuhúsi sem tryggir aðgengi á allar hæðir hússins. Á jarðhæð Bryggjuhússins er salerni sem uppfyllir algilda hönnun. Einn hjólastóll er í húsinu til afnota fyrir gesti. Vinsamlegast hafið samband við starfsfólk húsanna sé þörf á frekari upplýsingum um aðgengi. "
  • Bæði íslenska og enska // Both Icelandic and English