
Kynja- og margbreytileikasjónarmið á Kvennaári: Ójöfnuður meðal kvenna á íslenskum vinnumarkaði
Kynjafræði við Stjórnmálafræðideild, í samvinnu MARK – Miðstöð margbreytileika og kynjarannsókna, býður til fundaraðar um kynja- og margbreytileikasjónarmið á Kvennaári.
Í þetta sinn er sjónum beint að áherslum Kvennaárs um vanmat á kvennastörfum og launajafnrétti, og verða kynntar niðurstöður rannsóknar á launaójöfnuði kvenna og hvernig sá ójöfnuður birtist í líðan kvenna, efnislegum skorti, samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs og félagslegum tengslum.
Fyrirlesari er Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Erindi Berglindar ber heitið: Ójöfnuður meðal kvenna á Íslandi: Vinnumarkaður, fjölskylda, fjárhagur og heilsa.
Í pallborði verða Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Gundega Jaunlinina, varaformaður verkalýðsfélagsins Hlíf í Hafnarfirði.
Fundarstjóri verður Finnborg S. Steinþórsdóttir, lektor í kynjafræði.
Um fundaröðina
Margt hefur áunnist í jafnréttismálum síðustu áratugi, og til að stuðla að framþróun er gagnlegt að skapa vettvang þar sem rannsakendur og hagaðilar, sem eru nú þegar að vinna gott verk á sviðinu, geta rýnt stöðuna og rættt helstu áskoranir.
Kvennaár hefur sett fram kröfur sem má skipta upp í þrjár áherslur: vanmat á kvennastörfum og launajafnrétti; ólaunaða vinnu og umönnunarábyrgð; og kynbundið ofbeldi.
Á hverjum fundi verður eitt áherslusvið tekið fyrir, með kynja- og margbreytileikasjónarmið í forgrunni.