Á Íslandi er langt í land þar til fullu jafnrétti er náð. Konur og kvár búa enn við margvíslega mismunun, launamisrétti og hér geisar enn faraldur kynbundins ofbeldis. Ákveðnir hópar eru verst settir, konur af erlendum uppruna, hinsegin konur, konur með fötlun, láglaunakonur og heimilislausar konur. Kynjamisrétti gengur á heilsu og velferð kvenna, en konum hefur fjölgað meðal örorkulífeyrisþega.
Í hálfa öld hafa konur, og nú kvár, komið saman 24. október til að krefjast aðgerða í þágu jafnréttis í íslensku samfélagi. Í fyrra lögðu yfir 100.000 konur og kvár niður störf til þess að krefjast breytinga. En lítið hefur breyst og nú verður að grípa til aðgerða. Aðgerða gegn ofbeldi, aðgerða gegn launamuni kynjanna, aðgerða til að bæta stöðu mæðra og aðgerða gegn mismunun á vinnumarkaði.
Vanmat á kvennastörfum og launajafnrétti
Atvinnutekjur kvenna eru enn um 21% lægri en karla. Helsta ástæða launamunar kynjanna er kynjaskiptur vinnumarkaður og vanmat á hefðbundnum kvennastörfum. Vinnudagar kvenna af erlendum uppruna eru lengri og óreglulegri en almennt meðal kvenna á Íslandi og laun þeirra lægri. Konur sem starfa við ræstingar og umönnun barna fá lægstu launin í íslensku samfélagi. Fjárhagslegt sjálfstæði er forsenda þess að tryggja öryggi og frelsi kvenna og kvára. Stjórnvöld þurfa að standa með konum og kvárum og fara í aðgerðir.
Stjórnvöld þurfa að:
- Leiðrétta kerfisbundið vanmat á kvennastörfum
- Tryggja að hægt sé að bera saman jafnverðmæt störf þvert á vinnustaði
- Klára vinnu við heildstætt virðismatskerfi og endurskoða starfsmat sveitarfélaga.
- Tryggja sambærilegt kerfi fyrir viðbótarlaun.
- Koma á samningaleið sem auðveldar einstaklingum að reisa jafnlaunakröfur. Setja reglur um launagagnsæi byggða á fyrirmynd ESB, en taka sérstakt tillit til íslenska vinnumarkaðarins, og tryggja virkt eftirlit.
Ólaunuð vinna kvenna og umönnunarábyrgð
Konur þurfa oftar að minnka við sig launaða vinnu til að sinna ólaunaðri vinnu innan veggja heimilisins. Yfir helmingur barna fær ekki leikskólapláss fyrr en eftir 18 mánaða aldur. Umönnunarbilið bitnar verr á tekjum, tækifærum og lífeyrisréttindum mæðra en feðra. Tekjur mæðra lækka um 30-50% við fæðingu barns og á þriðja ári eru þær enn umtalsvert lægri en áður. Tekjur feðra lækka um 3-5% við fæðingu en eftir ár eru þær orðnar þær sömu og áður. Einstæðar mæður eiga mjög erfitt með að ná endum saman.
Stjórnvöld þurfa að:
- Lögfesta rétt barna til leikskólavistar strax að loknu fæðingarorlofi
- Afnema skerðingar á lægstu greiðslum í fæðingarorlofi og tryggja að fæðingarorlofsgreiðslur verði aldrei lægri en lágmarkslaun
Kynbundið ofbeldi
Um 40% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni, en trans fólk, þ.m.t. kvár og annað kynsegin fólk, fatlaðar konur og konur af erlendum uppruna eru líklegri til að verða fyrir ofbeldi en önnur. 15% stúlkna í 10. bekk og 6% stráka hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi annars unglings. Ofbeldi í netheimum getur verið jafn alvarlegt og ofbeldi í raunheimum, en 58% stúlkna og 35% drengja hafa orðið fyrir stafrænu kynferðisofbeldi. Þau sem sinna ungum brotaþolum kynferðisofbeldis sjá í vaxandi mæli sterk tengsl á milli kláms og lýsinga þolenda á ofbeldinu. Neysla kláms meðal barna og unglinga er orðin svo almenn að sú upplýsingagjöf er margföld á við raunverulega kynfræðslu. Fólk sem vinnur með börnum og unglingum sér áþreifanleg áhrif kláms á samskipti þeirra – markaleysi, virðingarleysi, óvelkomnar snertingar og gróft klámtal. Auk þess þarf að bregðast við hatursorðræða og fordóma gagnvart hinsegin ungmennum með viðeigandi fræðslu í skólum.
Stjórnvöld þurfa að:
- Brotaþolum sé tryggð fullnægjandi þjónusta, s.s. túlkaþjónustu og aðgengi, í samskiptum við opinberar stofnanir. Í þessu felst að færniuppbygging, sérstaklega í tengslum við stöðu jaðarsettra hópa, sé gerð skyldubundin. Þetta á við um dómara, ákærenda, lögregluna og aðra sem koma að málum er varða kynbundið ofbeldi.
- Endurskoða lög um nauðganir og önnur kynferðisbrot og annað kynbundið ofbeldi, til að fanga meðal annars brot í netheimum og á samskiptamiðlum.
- Hefta aðgengi ungmenna að klámi með aðgangsstýringu.
- Kynjafræði, hinseginfræði og menntun um birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og samskiptafærni verði færð inn í námskrá grunn- og framhaldsskóla.
- Tryggja aðgengi ungs fólks að nafnlausri ráðgjöf og spjalli við ráðgjafa.
Töluvert vantar uppá að nálgunarbann hafi tilætluð áhrif þar sem brot gegn því hefur ekki afleiðingar umsvifalaust, nær væri að brot varðaði sektum sem lagðar væru á þegar brot er framið . Algengt er að þegar konur og kvár afhjúpa ofbeldið sem þau verða fyrir og krefjast þess að gerendur verði gerðir ábyrgir með einhverjum hætti er slegið harkalega til baka, m.a. með meiðyrðarmáli sem stefnir fjárhagslegri framtíð í hættu ekki síður en andlegri líðan uppljóstrara. Hatursorðræða á grundvelli kyns og kynferðis er orðin áberandi og útbreidd. Í nýjustu skýrslu alþjóðlegrar eftirlitsnefndar um afnám mismununar gagnvart konum er brýnt að á Íslandi sé þörf á löggjöf sem geri hatursorðræðu þessa refsiverða.
Við krefjumst þess að:
- Brot á nálgunarbanni hafi afleiðingar þannig að bannið hafi áhrif og lögreglan fái rýmri heimildir til að beita nálgunarbann
- Sett verið lög um vernd uppljóstrara í kynferðismálum sem nái til brotaþola sem greina frá ofbeldi.
- Hatursorðræða á grundvelli kynjamisréttis, kvenhaturs og aðrar tegundir hatursorðræðu á grundvelli kyns, verði gerð refsiverð.
Ástæður þess að fólk, aðallega konur og kvár, leiðist út í vændi eru að stærstum hluta vegna fjárskorts og því er efnahagslegt sjálfstæði ekki síður en yfirráð yfir eigin líkama lykilþáttur í að koma í veg fyrir þetta ofbeldi. Hvernig svo sem fólk skilgreinir vændi þá telja flest það mikilvægt að vera með útgönguleið á félagslegum forsendum.
Stjórnvöld þurfa að:
- Tryggja afkomu, húsnæði og vernd til að auðvelda fólki að komast úr vændi og/eða mansali.
Hvers vegna Kvennaár?
Það eru liðin 50 ár frá því að konur hér á landi lögðu niður launuð sem ólaunuð störf sín og stöðvuðu þannig samfélagið. Þrátt fyrir þrotlausa baráttu í hálfa öld búa konur enn við misrétti og ofbeldi.
Metþátttaka í Kvennaverkfallinu fyrir ári síðan, á 21 stað um land allt og stærsta útifundi Íslandssögunnar í Reykjavík, sýndi svo ekki verður um villst að við erum tilbúin til að taka við keflinu frá baráttukonunum sem á undan okkur komu. Valdefling, baráttugleði, og skýrt ákall um breytingar einkenndu þessa gríðarlegu samstöðu rétt eins og árið 1975. Samfélag sem rís svo sterkt upp gegn ójafnrétti hefur alla burði til að verða raunveruleg jafnréttisparadís.
Til að fylgja eftir Kvennaverkfallinu höfum við, fjölmörg samtök femínista, kvenna, launafólks, fatlaðs fólks og hinsegin fólks tekið höndum saman og leggjum fram kröfur okkar. Við gefum stjórnvöldum eitt ár eða til 24. október 2025 til að breyta lögum og grípa til aðgerða til að tryggja fullt og endanlegt jafnrétti kynjanna.
Við ætlum ekki að bíða lengur! Til að fylgja kröfunum eftir og halda byltingunni áfram boðum við jafnframt Kvennaár 2025 þar sem við fléttum saman baráttu okkar fyrir samfélagi þar sem öll búa við jöfn tækifæri og möguleika. Frekari dagskrá Kvennaárs 2025 verður kynnt í upphafi ársins.
Nú tökum við höndum saman enn á ný og fylkjumst bak við kröfurnar. Við vitum sem er að sameiginlegur kraftur okkar er óstöðvandi. Sagan sýnir okkur það. Við getum, þorum og viljum!
Aðstandendur
- Aflið
- Alþýðusamband Íslands
- Bandalag kvenna í Reykjavík
- BHM – Bandalag háskólamanna
- BSRB
- Druslugangan
- Femínísk fjármál
- Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
- Félag kvenna í nýsköpun
- Félag um Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna á Íslandi
- FKA // Félag kvenna í atvinnulífinu
- Hagsmunasamtök brotaþola
- Hagsmunasamtök knattspyrnukvenna
- Icefemin
- Íslandsdeild Norrænna kvenna í sáttamiðlun
- Kennarasamband Íslands
- KÍO // Konur í orkumálum
- Kítón – konur í tónlist
- Knúz.is
- Konur í lögmennsku
- Kvenfélagasamband Íslands
- Kvennasögusafn Íslands
- Kvenréttindafélag Íslands
- Kvennaráðgjöfin
- Kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands
- Læti! tónlist // Stelpur rokka!
- Líf án ofbeldis
- Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna
- Q – félag hinsegin stúdenta
- RIKK – Rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum
- Rótin félagasamtök
- Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja -SSF
- Samtök um Kvennaathvarf
- Samtökin ’78
- Soroptimistasamband Íslands
- Stígamót
- Trans Ísland
- UAK // Ungar athafnakonur
- UN Women á Íslandi
- WIFT – Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á Íslandi
- W.O.M.E.N. in Iceland
- WIFT – Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á Íslandi
- WomenTechIceland
- ÖBÍ
- Öfgar